Jun 30, 2008

aftur er ég farin að...

...telja niður dagana í frí.

Maður er einhvern vegin ekki í neinu stuði til að vinna á sumrin - a.m.k. er ég ekki eins áfjáð í að sitja inni á skrifstofunni og vinna. Þótt það þurfi engu að síður að gerast. Frí hefst að nýju í kringum 11.júlí og lýkur ekki fyrr en eftir verslunarmannahelgi - víhííííí.

Ekkert sérstakt á dagskránni - kíkjum líklega í sveitina og jafnvel í sveitir annars staðar á landinu.

Örving skellti sér á tennis námskeið hjá Víking í upphafi síðustu viku og mun vera þar út þessa viku að spila tennis fyrir hádegi. Hann er nokkuð ánægður með þetta námskeið þó að ég sé ekkert sérstaklega kát með það. Ekki nógu vel að þessu staðið, krakkar sem lítið kunna að kenna að kenna öðrum krökkum - láta þau hlaupa á eftir tennisboltum, það er ekki markmið að gera þau að boltasækjurum á þessu námskeiði heldur kenna þeim að spila tennis sem ég held að fari fyrir ofan garð og neðan. En á meðan örving kvartar ekki þá ætla ég ekki að tuða neitt.

þar til næst
ciao

Jun 20, 2008

er ekki kominn tími á smá uppfærslu hérna???

við erum s.s. komin úr þessu dásamlega fríi sem hófst þann 1.júní hjá okkur örving þegar við flugum út til Berlínar til að hitta kennarann sem hafði verið þar með vinnufélögum í nokkra daga á undan.

Við dvöldum í Berlín frá sunnudegi til miðvikudags. Brölluðum margt og mikið. Fórum í dýragarðinn sem er staðsettur í miðri borginni - mjög skemmtilegur garður. Sáum því miður ekki Knút - hann var eitthvað vant við látinn þennan daginn. Borgin er ótrúlega falleg - mjög mikill gróður. Annars var dvöl okkar svona týpísk túristadvöl í borg, fórum í siglingu, löbbuðum mikið og skoðuðum helstu staði og byggingar. Smá leifar af múrnum, minnismerki um þá sem voru drepnir við að reyna að flýa frá austri til vesturs.
Ég var sérstaklega hrifin af Podstamerplatz, sem er torg/byggingar á svæði sem var á milli múranna - þeim hefur tekist sérstaklega vel upp þar í uppbygginu.
Örving var kátur og glaður með dvölina, fékk marga marga ísa og smakkaði krókódílakjöt sem hann segir að sé besta kjöt sem hann hefur smakkað.

Við fórum í stutta heimsókn í sendiráð íslands - það er ótrúlega flott bygging og smart. Og hugmyndafræðin í arkitektúrnum algjör snilld. Þetta er svona samnorrænt sendiráð - allar norðurlandaþjóðir saman með 5 hús í þyrpingu. Húsin standa eins og lega landanna er og ýmis svona smáatriði alveg útpæld. Mjög vel heppnuð framkvæmd.

Ástæðan fyrir heimsókninni var nú reyndar ekkert skemmtileg. Þegar við vorum að pakka dótinu okkar á miðvikudagsmorgninum fundum við ekki ökuskírteini og debetkort kennaranns sem hafði legið á borði á hótelherberginu okkar. Við snerum öllu við, pökkuðum upp og niður úr töskunum nokkrum sinnum en allt kom fyrir ekki - kortin voru horfin.

Við á leið í 2 vikna ökuferð um Evrópu vorum dáldið smeyk að hann væri ekki með ökuskírteini svo að við töluðum við sendiráðið og þeir redduðu fyrir okkur staðfestingu á að hann væri með ökuréttindi frá lögreglunni héðan heima. Svo tók við heimsókn á lögreglustöð þar sem þurfti að gefa skýrslu um stolið eða glatað ökuskírteini - það fór ansi langur tími í þetta svo að brottför okkar frá Berlín tafðist hressilega.

Klárlega mun ég heimsækja Berlín aftur.

Við tætum þó af stað og leið lá til Prag. Höfðum hugsað okkur að stoppa í Dresden á leiðinni en vegna tafa þá bara keyrðum við beint til Prag.

Skemmtileg leið og fallegt. Þegar við komum inn í Tékkland þá endaði hraðbrautin fljótlega og við þræddum sveitavegi lang leiðina að borginni - fallegt land en bæir þar mjög hrörlegir og í slæmu ásigkomulagi. Keyrðum fram hjá a.m.k tveimur kjarnokruverum og töldum okkur verða mjög geislavirk í kjölfarið :-)
Ekkert hótel hafði verið pantað í Prag og við vorum að spá í á leiðinn hvernig við ættum að bjarga þeim málum. Þegar við erum að renna inn í borgina sjáum við stórt skilti - tourist information/hotels. Ég snaraði mér inn á þessa "flottu" skrifstofu sem einhverntíman hafði verið með filtteppi og nýjum stólum - og starfsstúlkan einu sinni með hár í einhverjum lit. En þegar þarna var komið þá var s.s. ekkert eftir af filtteppinu, svampurinn flæddi út um göt á áklæðinu á stóunum og hárið á stúlkunni var svo aflitað að það var eins og hár á eftirlíkingu af barbídúkku.

Hún var hins vegar hin besta hjálp og útvegaði okkur mjög gott hótel rétt fyrir utnan miðbæinn á fínu verði og við alsæl.

Við tættum í bæinn strax og við vorum búin að finna hótelði - sem tók dálítinn tíma þar sem GPS konan var ekki með Prag á hreinu, þekkti mjög fáar götur þar og vissi alls ekki hvar gatan sem hótelið stóð við var. En þetta hafðist all að lokum. Flott hótel á meira en helmings afslætti steinsnar frá miðbænum - innan við 10 mínútur með sporvagninum.

Við ákváðum að taka Prag á skynseminni og bókuðum okkur í 4 tíma skoðunarferð um borgina - örving til mikillar skelfingar. Við mútuðum honum með ís og fleira góðgæti og hann fór sáttur af stað í ferðina. Þetta var hin skynsamlegasta ákvörðun hjá okkur - sáum allt það markverðasta í borginni. Prag er ótrúlega falleg borg, en dýr :-) Við höfðum hugsað okkur að kaupa eitthvað af kristal - enda borgin þekkt fyrir slíkan varning, verðlagið var hins vegar þannig við tókum þá ákvörðun að kaupa ekkert, hægt að fá sambærilegar vörur hér á íslandi fyrir sama pening.

Föstudaginn 6. júní drifum við okkur af stað til Slóveníu. Ökuferðin tók 10 tíma í allt. Við höfðum ekki áttað okkur á því að frá Prag til Austurríkis liggja engar hraðbrautir og við þræddum sveitavegi ásamt innfæddum sem óku um á dráttarvélum og öðrum hægfara ökutækjum, það vantaði bara að sjá bónda á ferð með fjölskylduna á asna með aftan í vagni!

Rétt áður en við komum að landamærum Austurríkis þá duttum við nú aldeilis í lukkupottinn :-) þar var verkmiðjusöluverslun með kristalvörur. Auðvita vildi ég stoppa þar og fylltum við bílinn af hinu og þessu, eða þannig. Keyptum okkur ýmislegt fallegt á hrikalega góðu verði - verðlagið þarna var um 1/4 af verðinu í Prag.

Þegar líða tók á kvöldið nálguðumst við Lublijana og á móti okkur tók ein mesta rigning sem ég hef nokkur tímann séð. Hraðbrautin var bókstaflega að verða að sundlaug!
Enn og aftur bráðst GPS konan okkur og hún vissi ekkert hvar bærinn Trzin var í landinu. Við vissum nú betur en hún og tókum stefnu á Lubiljana þar sem þetta er svona Garðabær þeirra. En allt kom fyrir ekki og við rammvillt og vissum ekkert. Þá var nú gott að eiga góða að þarna sem við gátum hringt í og við gjörsamlega lóðsuð heim að dyrum.

Það var tekið frábærlega á móti okkur og við dvöldum í góðu yfirlæti hjá Donnu og Birni í heila viku. Örving var alsæll að hitta aðra krakka og sérstaklega ánægður með Þormar

Slóvenía er ótrúlega fallegt land og við ferðuðumst mikið og skoðuðum okkur vel um. Fórum á ströndina - Slóvenía á ekki nema 45 kílómetra langa strandlengju. Komum í ótrúlega fallegan lítinn strandbæ sem heitir Prian, lítill túristmi þar og

Fórum í dagsferð til Feneyja - það er alveg mögnuð borg. Ég hafði reynt að ímynda mér hvernig hún er, en það er bara ekki hægt að ímynda sér þetta - mögnuð upplifun að koma þangað.

Bled í Slóveníu stóð uppúr þar í landi hvað mig varðaði - þetta er magnaður staður - fegurðin er alveg ólýsanleg.

Enduðum ferðina okkar í Munchen laugardaginn 14.júní. Þá helgina var borgin að halda upp á 850 ára afmæli sitt og mikið um dýrðir og gleði í borginni. Það voru bjórtjöld út um allt og básar þar sem hægt var að kaupa sér pretzel, pylsur og fleira bæverskt góðgæti sem og ýmsan annan varning sem heimamenn höfðu búið til. T.d. var hægt að kaupa þar lederhosen - mér fanst mjög undarlegt að hvorki örving né kennarinn vildu svoleiðist - huhh, hélt þetta væru smekk menn :-)

sunnudag 15. júní héldum við heim á leið fljúgandi frá Munchen - öll þrjú sátt og sæl með fríið.

Þetta var svona stiklað á stóru um ferðina - e.t.v. mun ég bæta inn skemmtisögum af hinum ýmsu atvikum síðar.

Ef svo ólíklega vill til að einver vill skoða myndir þér er hægt að skoða þær hér: http://picasaweb.google.com/elisabetit/EvrPufer115JN

þar til næst
ciao