Oct 10, 2007

10.10

er massa flottur dagur.

Karl faðir minn er fæddur þennan dag fyrir 88 árum. Örving var skírður þennan dag fyrir 12 árum.

Ætlum að halda upp á afmælið, sko hjá gamla manninum. Höldum ekki upp á skírnarafmæli!

Afinn/pabbinn fékk afmælisgjafir í morgun - silfurbúinn staf og enn ein ný náttföt! Svo koma vinir í mat í kvöld.

Hvað eldar maður þegar meðalaldur matargesta er 80+?? Það verður að vera eitthvað mjúkt undir tönn, full eldað og eitthvað gamaldags e.t.v. Kjötsúpa - nei, ekki beint hátíðarmatur, en lambakjöt líklega öruggast.

Annars er sá gamli alltaf til í að prófa nýtt og er mikill sælkeri, enda búin að ferðast út um allan heim á sinni löngu ævi og snæða á fínustu veitingahúsum sem völ er á og drekka góð vín með. Hann myndi ekki slá hendinni á móti sniglum og nautasteik - en gömlurnar sem koma í mat, ég veit ekki alveg hvort þær kynnu að meta slíkan mat.

Held það sé mjög "öruggt" að hafa t.d. lambafilet og eitthvað gott með því - klikkar ekki og alltaf gott. Já og ís og ávexti á eftir! Öruggt og gott :-)

Pabbi kenndi mér að njóta alls þess frábæra sem lífið hefur upp á að bjóða - njóta þess að vera til, njóta hvers dags sem maður lifir. Sitja á veitingahúsum og njóta þess að borða góðan mat, láta stjana við sig og hafa það huggulegt.

Örving druslaðist í skólann í morgun - ég sagði honum að nú þýddi ekkert lengur að sitja heima og vorkenna sér, það væri fullt af börnum í heiminu sem hefðu misst hendina í stað þess að brotna - held það hafi virkað smá á hann.

Verkirnir eru nánast farnir svo þetta hlýtur að vera á réttir leið.

Svo benti ég honum á að þeir sem eru í gipsi fá líklega ótakmarkaða athygli hjá bekkjarfélögum og þá sérstaklega stelpunum - hann keypti það, þó ég hafi ekki hugmynd um þetta :-)

Helgin alveg að detta inn - mikið hlakka ég til! Ætla að gera sem minnst, lítið annað en að væflast í ræktinni og stjana við sjálfan mig - s.s. njóta lífsins!

þar til næst
ciao

No comments: